Ljónið kvatt!

Á morgun á ég ekki lengur bíl. Litla sæta og þjónustuglaða ljónið mitt er ónýtt, óökufært og samankýttað. Stendur nú í hópi annarra ólánsamra ökutækja í tjónaskoðunarstöð VÍS og bíður örlaga sinna. Fór þangað í dag og hirti ýmislegt smálegt úr honum. Tók snjóburstann minn og sólgleraugun og fann svo rauða regnhlíf sem ég var búin að gleyma og gamalla ráðstefnupappíra. Vona bara að ekkert hafi verið í skottinu því það var ekki nokkur leið að opna það. Þetta var alveg eðalbíll með splunkunýjan vatnskassa, nýástandsskoðaður og bara ekinn 30700 km. Verður erfitt að finna annan sambærilegan....snökt snökt.

Annars heldur sumarfríið bara áfram með tilheyrandi leti og viðsnúningi á sólarhringnum. Er nú samt búin að afreka að pota niður nokkrum sumarblómum, taka nokkra rúnta og sinna lasarusunum í fjölskyldunni og knúsa Ídu Maríu Steinunnarsysturdóttur alveg ómælt. Verður hér heima í tvær vikur í viðbót en annars alveg óvíst hvenær ég fæ færi á að knúsa hana aftur. Ótrúlega yndislegt að hitta hana loksins. Skrýtið að geta saknað einhvers sem maður hefur aldrei hitt og svo er hún bara í fanginu á manni og alveg jafn ótrúlega yndisleg og allar myndirnar af henni.

Svo á ég nú bara ekki til orð yfir verðlaginu í þessu blessaða þjóðfélagi okkar. Hvernig getur t.d. einn Camenbertostur hækkað um 50 kr. á nokkrum vikum. Hvað réttlætir eiginlega þessar ótrúlegu verðhækkanir á einu og öllu. Ekki hækka launin í samræmi við aðrar hækkanir.......það er nú alveg ljóst. Svo er bara verið að spá bongoblíðu um helgina og þá er hægt að taka fram USA hlýrabolina og spranga um í blíðunni.........


Af rússibönum og fleiri skaðræðisgripum

Verð nú bara að segja það að ég skil ekke alveg hvað það er sem fær fólk til að fara í rússibana og önnur ennþá hræðilegri tæki til að láta hrista sig og skekja og æða áfram á ofsahraða og fá ekki við neitt ráðið.  Í gær fór ég í mína fyrstu og síðustu rússibanaferð.  Ákvað að drífa mig með krökkunum, svona til að sýnast ekki alger aumingi.  Þetta var stærsti og hraðskreyðasti timburrússibani í Kanada.  Og til að gera langa sögu stutta þá geri ég þetta aldrei aftur.  Náði ekki einu sinni að verða hrædd, fáranlegt.  Sat bara pinnstíf og ríghélt mér í með augun lokuð allan tímann.  Jebb, aldrei aftur.  Í dag er svo stefnan tekin á Niagara og svo yfir til USA á morgun.  Búið að vera ansi heitt þessa daga, samt ekki of og sumir sólbrenna en aðrir ekki.....nefni engin nöfn.  Í dag þyrftu sumir t.d. að vera í flík sem  nær næstum upp að eyrum og derhúfan verður ekki tekin niður vegna sólbrúna í hvirfli........hihi.  Annars er bara gaman en og börnin segja........biðjum að heilsa öllum og gaman ef einhver ættingi myndi senda mér póst og gefa mér upp stöðuna á sjúklingunum í fjölskyldunni.  

Megið líka alveg commenta........knús til allra!


Toronto kvödd á drynjandi Pontiac!

Ligg hér upp í rúmi á hóteli í Cambridge, Ontario.  Bara ég og drengurinn sem eru vöknuð. Unglingurinn getur alltaf sofið og Brynjari veitir ekki af smá hvíld eftir akstur gærdagsins.  Kvöddum Toronto í gær eftir góða daga í þessari skemmtilegu borg.  Seinni daginn þar fórum við m.a. og skoðuðum gæmigerðan markað í eldgamalli múrsteinsbyggingu.  Alltaf gaman að koma á svona markaði þar sem öllu ægir saman í mat.  Augun ætluðu út úr höfðinu á drengnum yfir öllum flottheitunum en þeir sem þekkja hann vita að hann elskar mat.  Við fengum okkur smá ólífu smakk og kirsuber og dáðumst svo að öllu kjötinu og þefuðum af ostunum.  Um kvöldið voru sumir orðnir svo þreyttir að þeir skiluðu öllu matarkyns pent í klósettið.  Eftir smá stund heyrðist svo hin gullna setning "ég er svangur."  Vorum þá nokkuð viss að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur.  Í gærmorgun  náðum við svo í bíleleigubílinn og fengum hvorki meira né minna Pontiac Grand Prix sem drynur í þegar B snertir bensíngjöfina.  Á þessu farartæki skutumst við út úr Toronto og í átt að Cambridge.  Höfðum viðað að okkur góðum leiðbeiningum þannig að þetta var ekki mikið mál.  Fórum héðan og kíktum á yndislega gamlan bæ,  ST. Jacobs, þar sem aðalgatan hefur verið óbreytt síðan guð má vita hvenær.  Þetta er á svæði Mennoníta en þeirra lífsýn er mjög sviðuð og hjá Amish fólkinu.  Þarna sáum við fólk aka í hestakerrum og alles og gláptum auðvitað úr okkur augun.  Fórum á mjög skemmtilegt lítið safn um sögu Mennónía og sáum að þeir eins og margir aðrir voru hraktir frá Evrópu vegna trúarskoðanna sinna.  Að labba þarna á aðalgötunni í því dásemdarveðri sem var í gær,  var bara eins og að vera komin í Húsið á sléttuna.  Þarna keypti ég mér litla heinasaumaða Mennoníta / Amish dúkku og einn af mínum draumum varð að veruleika þegar ég kom inn í mína fyrstu bútasaumsbúð utan Íslands.  Agreiðslukonan var að sjálfsögðu mennoníti og seldi mér pínu vöndul af grænu efni, með bros á vör.  Í staðinn fyrir að taka hraðbrautina til baka ókum við sveitavegina og það var yndislegt.  Sáum heimili Mennónítana með sínum risastóru hlöðum sem myndu eflaust rúma smáþorp á Íslandi.  Hérna allt í kringum hótelið eru risa verslunarcomplexar og dró ég liðið yfir götuna í gærkvöldi til að kíkja í Wal-mart.  Wal-mart selur allt og þá meina ég allt sem hugurinn girnist.  Þessar búðir eru svo stórar að hægt væri að búa þar og koma aldrei út eftir nauðsynjum því þú hefur þær á staðnum.  Röngluðum þarna um og fjárfestum sandölum á liðið og Ari keypti sér litla leikjatölvu fyrir afmælispeningana sína.

Í dag er svo stefnan tekin á Canadas Wonderland sem er risa skemmtigarður með öllu sem hægt er að ímynda sér.  Loksins er liðið orðið nógu hávaxið til að fara í Rússibana og þau geta ekki beðið.  Mamman verður líklega að bíða bara á meðan og passa töskur og myndavélarBlush.

Vil svo benda ykkur á Fréttablaðið í gær, bls. 10 að mig minnir.  Þar er mynd af unglingssnillingnum mínum.  Hún og 9 bekkjarfélagar hennar voru að taka samræmd próf í stærðfræði og fékk hópurinn hvorki meira né minna en 9.8 í meðaleinkun.....geri aðrir betur.

Læt í mér heyra eftir rússibanaferðir dagsins........

kv. Maja og co.


Á topp heimsins á 58 sek......

þá er fyrsti dagurinn í Toronto að kveldi kominn.  Búið að vera ansi heitt og rakt en samt langt frá því að vera óbærilegt (hef Róm til samanburðar).  Vorum komin hingað á hótelið um 9 að staðartíma í gærkveldi en þá er klukkan orðin eitt eftir miðnætti heima.  Sumir voru orðnir ansi framlágir en var samt druslað út til að borða.  Fórum svo að sofa um 3 að okkur tíma og vöknuðum hress í morgun og til í tuskið.  Borðuðum morgunmat á hótelinu og fengum þá stærstu matarskammta sem við höfum séð, amk. í langan tíma.  Fórum svo í rútuferðu um borgina og erum mjög hrifinn.  Skemmtileg borg sem er hrein og snyrtileg og rólegheit yfir öllu miðað við margar aðrar borgir sem við höfum komið í.  Skelltum okkur svo upp í CN turninn sem var lengi hæsta mannvirki í heimi.  Þar var hægt að leggjast á glergólf og horfa beint niður.  Ekki spennandi fyrir lofthrædda auk þess sem marraði í glerinu þegar stigið var á það.  Þarf ekki að taka fram að útsýnið þarna uppi er stórfenglegt en samt heldur mikið mystur til að útsýni næði langt.  Svo var bara chillað, kíkt í risa verslunarmiðstöð, Eaton center og borðað og verslað pínu pons, bara pínu pons, ítreka það.  Vorum svo að koma heim eftir kvöldmat í Kínahverfinu og skemmtilega kvöldgöngu gegnum miðborgina þar sem verið var að kenna og sýna Tangó.  Reyndum eins og við gátum að fá Iðunni til að vera með en hún harðneitaði.  Á morgun er svo kennsla í diskódansi og við ætlum sko ekki að missa af því.  Sjá hvort við, gamla settið, höfum gleymt einhverju.........hihi.

Á morgun er spáð rigningu svo við högum bara seglum eftir vindi.  Nokkrir staðir sem okkur langar að kíkja á en kemur bara í ljós hvernig veðurguðirnir fara með okkur.

Sendum knús til litlu frænkunnar á Ísafirði, sem fæddist í gær og svo til afa Adda og allra hinna sem eru hálf krambúleraðir.

Lentum í vandræðum með símana okkar og rafmagnið hérna.  Enduðum á að setja símakortið hans Brynjars í símann hennar Iðunnar þar sem hún var með eina hleðslutækið sem virkaði.  Nú er verið að tygja sig í háttinn í vel loftkældu herbergi með yndislegum rúmum.......

Vissuð þið að kínverska er annað mest talaða tungumálið í Toronto?  Hélt alltaf að það hlyti að vera franska........

kv. Maja og co.


Á morgun segir sá lati!

Í þessu tilfelli er sá lati sú lata eða frúin sjálf.  Ætla að gera eina tilraun enn til að halda þessu bloggi mínu lifandiSmile.  Leti er löstur og ég berst gegn slíkum ósóma eins og hægt er, en því miður.....eins og ég segi ein tilraun enn.

Ligg annars í rúminu  núna stíf eins og spýta eftir hressilega aftanákeyrslu í gær.  Tek fram að það var keyrt aftan á mig og litli Pusinn minn kastaðist á næsta bíl fyrir framan.  Kúlan eftst á kroppnum hentist auðvitað út og suður þannig að eftirköstin eru að láta á sér kræla.  Ekki mjög spennandi í ljósi þess að nú eru aðeins um 72 stundir í sumarfríið.  Ætla því að láta eins prinsessan á bauninni þangað til...Grin....eða reyna það að minnsta kosta.   Sem betur er nú eiginlega allt alveg tilbúið, aðeins eftir að kaupa nokkra dollara og troða ofaní tösku.  Allir orðnir svaka spenntir þó eitt og annað skyggi nú á.  Amma mín, 94 ára fór í aðgerð í gær og sem betur fer heilsast henni vel.  Pabbi minn er að fara í stóra aðgerð á föstudaginn og verður vonandi komin á braut til heilsu, þegar við förum.   Þar sem við sátum á slysó í gær og biðum ( þrír klukkutímar, nýtt persónulegt met) þá fréttum við að Selma mágkona mín á Ísó hefði slasað sig og verið væri að flytja hana suður með sjúkraflugi.  Nú og við biðum svo lengi á slysó eftir einhverjum að meta mig að við náðum meira að segja að hitta á Selmu greyið, útúrdópaða og vart viðræðuhæfa.  Hún fór svo í aðgerð í gærkvöldi þar þeir tjösluðu saman á henni ökklanum sem talinn var tvíbrotinn en reyndist svo þríbrotinnFrown

Á leiðinni heim af slysó spurði ég hvort ég fengi ekki fjölskylduafslátt en því miður er Guðlaugur Þór ekki búinn að koma slíku kerfi á.........

Bið að heilsa í bili,  over and out


Íslandsmeistari

Unglingurinn minn fagnar eftir að hafa landað sínum 5. Íslandsmeistararitli í Taekwondo, þann 15. mars sl.  Fyir átti hún 3 gull frá 2005 og 1 frá 2006.  Lumar líka á einhverjum silfrum og bronsum en þau teljast ekki með.  2007 var hún fríi en er nú mætt aftur til leiks og ætlar að sögn aldrei að hætta aftur.


Halló !!!

Er held ég bara loksins og endanlega búin að gefast upp á hinni bloggsíðunni minni.  Þessi hérna var nú stofnuð fyrir margt löngu eins og sjá má á myndum og fleira.  Svo týndust aðgangsorð og leyniorð og varnarorð og gvuðmávitahvað.  Nú virðist frúin vera búin að finna allt það sem við á að eta þannig að þá er mér ekkert að vanbúnaði að byrja.  Ætla samt að hafa þetta stutt í þetta sinn þar sem Frú Flensa hefur verið að herja á okkur mæðgurnar svo úthaldið er sama og ekkert.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband